Skýrsla stjórnar Félags fagfólks í frítímaþjónustu starfsárið 2012-2013

Skýrsla stjórnar Félags fagfólks í frítímaþjónustu starfsárið 2012-2013

Á aðalfundi félagsins þann 15. maí 2012  var ný stjórn kosin. Hulda Valdís Valdimarsdóttir, þáverandi formaður, gaf kost á sér til áframhaldandi setu sem formaður og var sjálfkjörin. Guðrún Björk Freysteinsdóttir og Helgi Jónsson. sem höfðu bæði setið í stjórn sl. stjórnarár, gáfu aftur kost á sér og voru kosin til tveggja ára. Hrafnhildur Gísladóttir og Elísabet Pétursdóttir sátu sitt seinna ár í stjórn en þær höfðu verið kosnar til tveggja ára á aðalfundi félagsins 2011. Í varastjórn félagsins voru kosnir þeir Bryngeir Arnar Bryngeirsson og Björn Finnsson. Skoðunarmenn reikninga voru kosnir þeir Árni Guðmundsson og Ólafur Þór Ólafsson. Fyrsti fundur nýkjörinnar stjórnar var haldinn 3. september en samkvæmt lögum félagsins skal stjórn félagsins skipuð formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda og varð skipun stjórnar, sem er óbreytt frá fyrra ári, eftirfarandi:

Formaður: Hulda Valdís Valdimarsdóttir

Varaformaður: Elísabet Pétursdóttir

Gjaldkeri: Helgi Jónsson

Ritari: Guðrún Björk Freysteinsdóttir

Meðstjórnandi: Hrafnhildur Gísladóttir

 

Alls hélt stjórnin tíu formlega stjórnarfundi, þar af einn fund þar sem m.a. var unnið að starfsáætlun. Stjórnin mótaði áherslur í starfi í kjölfar þeirrar vinnu og voru þau verkefni sem stjórnin vann að þessi helst:

 

Fræðslumál

Sú hugmynd var samþykkt á aðalfundi félagsins að stofnuð yrði fræðslunefnd í samstarfi við stjórn til að skoða fræðslumál félagsins. Á fundinum gáfu Eygló Rúnarsdóttir og Jakob Þorsteinsson kost á sér til setu í nefndinni. Í erindisbréfi  um skipan nefndarinnar voru tilgreind meginmarkmið með starfi nefndarinnar en þau voru eftirfarandi:

  • Koma með tillögur að fræðslu fyrir félagsmenn í vetur.
  • Leggja fram hugmyndir um hvernig best gæti verið að útfæra slíka fræðslu, þ.e. hvar og hvenær slík fræðsla stæði félagsmönnum til boða.
  • Skoða fræðslumál félagsins til framtíðar og koma með hugmyndir þar að lútandi.
  • Kynna sér stofnun orðanefndar.

Tengiliður við stjórn var Hulda Valdís Valdimarsdóttir og hún sá um að boða aðra fulltrúa til funda. Nefndin fundaði fjórum sinnum og átti þess á milli í reglulegum tölvupóstsamskiptum. Markmiðin sem nefndinni voru sett náðust að mestu leiti. Lögð var  fram fræðsluáætlun sem samanstóð af Kompás/Compasito námskeiðum og vinnustofum, hádegisverðarfundum ásamt námskeiðum um reynslunám og félagsmálafræði.  Farið var í samstarf við tómstunda- og félagsmálafræðibraut í Háskóla Íslands og gerð tilraun um samstarf varðandi tvö námskeið. Unnið var að stofnun orðanefndar í samstarfi við Háskóla Íslands og er það mál komið í farveg. Nefndin setti einnig niður vangaveltur um framtíðina og voru þær þessar helstar:

  • Vera með ákveðið form sem fræðslunefnd fyllir inn í  fyrir hvern vetur eða ákveða heildarfjölda tilboða yfir veturinn og vinna út frá því.
  • Kynna fyrir félögum þá möguleika sem eru í boði til að taka stök námskeið hjá HÍ. T.d. er ein hugmyndin sú hjá HÍ að vera með ákveðin námskeið á meistarastigi í félagsmála- og tómstundafræði opin og þá hægt að taka stök námskeið samhliða starfi.
  • Áframhaldandi vinna varðandi orðanefndina er mikilvæg.
  • Áframhaldandi vinna varðandi tómstundahandbókina í samstarfi við Samfés, FÍÆT og HÍ. Spurning hvaða flöt eða stefnu á að taka í því máli og jafnvel huga að þýðingum eða tengingu við lokaverkefni í HÍ.
  • Ein hugmynd að vera með fasta hádegisverðarfundi mánaðarlega í samstarfi við fleiri aðila sem t.d. skipta því á milli sín að skipuleggja fundina eða þá að tengiliðir hittast og skipuleggur veturinn saman. Svipuð hugmynd og hjá Náum áttum en spurning hvort ekki væru um að ræða skörun við það verkefni.
  • Margir möguleikar vegna fræðslumála í samstarfi við aðra aðila sem einnig eru að sinna frístundastarfi, t.d. samstarf við Samfés og Æskulýðsvettvanginn, og þetta samstarf væri hægt að rækta betur en nú er gert.

 

Kompás/Compasito

Framhald var á samstarfi félagsins við mennta- og menningarmálaráðuneytið vegna námskeiða um mannréttindafræðsluefnið Kompás en félagið fékk formlegan styrk til að sinna þessu verkefni í janúar 2012 og var eitt námskeið haldið á síðasta starfsári stjórnar. Markmið námskeiðanna er að kynna hugmyndafræði Kompás fyrir starfsfólki sem vinnur með börnum og ungmennum á vettvangi frítímans.

Fyrirhugað var að halda þrjú leiðbeinendanámskeið á þessu stjórnarári en því miður þurfti að fella niður námskeiðið á Akureyri á haustmánuðunum vegna þátttökuleysis en haldið var námskeið á Akranesi í janúar og annað í Reykjavík í lok febrúar. Námskeiðið í Reykjavík var haldið í samstarfi við tómstunda- og félagsmálafræðibraut Háskóla Íslands. Eins og áður var það Pétur Björgvin Þorsteinsson sem var leiðabeinandi á námskeiðunum en hann hefur viðtæka reynslu af notkun bókarinnar. Í mars var svo prófuð sú nýbreytni að bjóða þeim sem búnir voru að fara á námskeið upp á stutta vinnustofu í þeim tilgangi að styrkja sig ennfrekar í lýðræðis- og mannréttindafræðslunni og skapa vettvang til að vinna með fleiri leiki og verkefni. Fyrirhugað var að halda aðra slíka vinnustofu í apríl en hún féll því miður niður vegna þátttökuleysis. Mikil ánægja var bæði með námskeiðin og vinnustofuna. Stjórnin samþykkti á síðasta starfsári að auglýsa eftir aðila innan félagsins til að taka að sér að halda utan um, skipuleggja, kynna og hafa umsjón með frekara námskeiðshaldi og átti hluti af umræddum styrk að fara í að greiða laun fyrir þá vinnu en því miður fékkst enginn innan félaginn í það verkefni og því sinnti stjórnin þessu verkefni sjálf samhliða öðrum verkefnum. Mennta- og menningarráðuneytið hafði áætlað að gefa út Compasito, mannréttinda- og lýðræðisfræðsla fyrir 9-13 ára börn, í mars 2013 en því miður gekk sú áætlun ekki eftir en vonir standa til að bókin komi út í íslenskri þýðingu síðar á árinu.

 

Samstarf

Mikil áhersla var á samstarf af ýmsum toga sl. stjórnarár og þau eru mörg sóknarfærin sem felast í auknu samstarfi þeirra aðila sem starfa með börnum og ungmennum í frítímanum. Hér verður farið yfir helstu samstarfsverkefnin á stjórnarárinu:

  • Félagið á áheyrnarfulltrúa í Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur. Fulltrúar félagsins í ráðinu eru Helgi Eiríksson og Jóhannes Guðlaugsson er til vara.  Frá því að FFF fékk áheyrnarfulltrúa í ráðinu, í nóvember 2011, hafa verið haldnir 40 fundir og Helgi setið 37 af þeim en kallað inn varamann á þrjá fundi. Helgi hefur sem áheyrnarfulltrúi beitt sér í ýmsum málum frístundastarfi til framdráttar og þá helst þegar honum hefur þótt þurfa að gæta jafnræðis á milli málaflokka sviðsins og í umræðum um starfs- og fjárhagsáætlun. Áheyrnarfulltrúi hefur ekki atkvæðisrétt en hefur möguleika á að setja inn bókanir í fundargerð og tvisvar hefur Helgi boðað bókun en dregið hana til baka eftir að komið hefur til móts við sjónarmið frístundastarfsins. Helgi telur mikilvægt að sjónarmið frístundastarfsins eigi rödd á þessum vettvangi en telur þó ákveðið ójafnvægi í hópi áheyrnarfulltrúa þar sem hann er eini fulltrúi frístundastarfsins.
  • Félagið var þriðja árið í röð samstarfsaðili um Íslenskar æskulýðsrannsóknir en ráðstefnan var haldin í þriðja sinn 30. nóvember 2012. Mörg áhugaverð erindi voru á ráðstefnunni og það virtist hafa jákvæð áhrif á þátttökuna að ráðstefnan var nú aftur haldinn á virkum degi.
  • Samstarfssamning vegna aukins samstarfs FFF, Samfés, FÍÆT og SFSÍ var samþykktur á síðasta aðalfundi FFF með smávægilegum athugasemdum. Samningurinn var jafnframt lagður fyrir til samþykktar á öðrum aðalfundum og vegna þeirra ábendinga sem gerðar voru við samninginn er verður hann aftur lagður fyrir til samþykktar á aðalfundi 2013. Meginmarkmið samningsins er að samræma áherslur og verkefni  sem félögin taka að sér og auka samstarf félaganna í þeim tilgangi að stuðla að farsælu og faglegu barna og ungmennastarfi. Sótt hafði verið um styrk í Æskulýðssjóð vegna samstarfsverkefnisins og þess kostnaðar sem af auknu samstarfi kann að hljótast fyrir félögin en sá styrkur fékkst ekki. Fulltrúi stjórnar sat fræðsluerindi sem haldið var í tengslum við aðalfund FÍÆT 3. maí 2013.  Í framhaldi af kynningu æskulýðsráðs í desember sl. um stefnumótun í æskulýðsmálum var ákveðið að skrifa sameiginlegt bréf til mennta- og menningarmálaráðuneytis til að leggja áherslu á mikilvægi þess að standa vel að þeim málaflokk sem æskulýðsmálin eru og óska eftir fundi með ráðherra vegna málsins. Þetta var sérstaklega  gert í ljósi þess að ekki voru haft nægilegt samráð við ákveðna lykilaðila af hendi æskulýðsráðs í vinnuferlinu. Ákveðið var að bíða með að senda bréfið þar til eftir kosningar nú í apríl til að auka líkur á viðbrögðum frá ráðuneytinu.
  • Fulltrúi FFF hitti fulltrúa frá HÍ og FÍÆT vegna áhuga á að vinna gerð handbókar fyrir starfsfólk sem vinnur með börnum og ungmennum á vettvangi frítímans en Alfa Aradóttir, fulltrúi FÍÆT, hafði á síðasta starfsári fundað með stjórn FFF og kynnti handbókarhugmyndina. Unnin hefur verið ákveðin þarfagreining um innihald handbókarinnar en ennþá hefur ekki verið endanlega ákveðið hvort ráðist verður í skrif eða hvort reynt verður að finna erlent rit til þýðingar. Áframhaldandi samstarf er fyrirhugað vegna þessa þarfa verkefnis.
  • Fulltrúi stjórnar sat undirbúningsfund vegna stofnunar vefmiðilsins Frítíminn.is en meginmarkmið með stofnun hans er að vera umræðuvettvangur um tómstunda- og félagsmálafræði og frítímastarf á Íslandi og kynna rannsóknir á sviði frítímastarfs. Ritnefnd mun starfa með þriggja manna ritstjórn og mun FFF tilnefna fulltrúa í ritnefnd. Sótt var um styrk til FFF til að standa undir kostnaði við hýsingu á léni vefmiðilsins fyrsta árið og var orðið við þeirri ósk. Bindur stjórn miklar vonir við þennan nýja miðil og vonast til að að hann verði frítímastarfi til enn frekari framdráttar og kynningar.
  • Fulltrúi stjórnar sat fund með fulltrúa frá Æskulýðsvettvangnum vegna Kompás/Compasito á vormánuðum. M.a. var rætt um áhuga á samstarfi vegna Kompás/Compasito-námskeiða og vinnustofa. Niðurstaða fundarins var að áhugi er hjá báðum félögum að vinna sameiginlega að námskeiðum og vinnustofum vegna Kompás og Compasito og mun útfærsla á því samstarfi liggja fyrir næsta haust.
  • Kolbrún Pálsdóttir og Þóra Melsted höfðu fyrir nokkru fundað með menntamálaráðherra vegna málefna frístundaheimila og í framhaldinu setti ráðuneytið á fót starfshóp þar sem markmiðið er að skoða hvort þörf sé á að ramma betur inn starfsemi frístundaheimila. Óskað var eftir fulltrúum FFF í hópinn og aðalfulltrúi er Þóra Melsted og varafulltrúi er Þorvaldur Guðjónsson. Bæði hafa þau mikla þekkingu á starfi frístundaheimila. Fyrsti fundur hópsins var haldinn 8. maí sl. og mætti Þorvaldur á þann fund þar sem Þóra var stödd erlendis en þar var rætt um verkefni hópsins og væntingar þeirra sem höfðu tök á að mæta. Næsti fundur hópsins verður haldinn 4. júní nk. Fyrirhugað er að fá kynningu fyrir hópinn á því hvernig málum frístundaheimila er háttað í Berlín en Þóra var þar í heimsókn á dögunum og einnig að fá Kolbrúnu til að vera með kynningu á doktorsverkefni sínu sem snýr að starfi frístundaheimila í Reykjavík og starfsfólkinu þar. Það verður áhugavert að fá að fylgjast með því hvernig hópnum gengur að vinna að þessu þarfa verkefni.
  • Félagið á fulltrúa í Náum áttum sem er opinn forvarnarhópur um fræðslu og forvarnir. Hópurinn stendur fyrir morgunverðarfundum um málefni sem tengjast forvörnum og velferð barna og ungmenna, alls hafa sex fræðslufundir verið haldnir á stjórnarárinu.  Elísabet Pétursdóttir hefur setið í nefndinni í vetur fyrir hönd félagsins.
  • Fulltrúi frá félaginu sat þriðja árið í röð í úthlutunarnefnd almennra styrkja og þróunarstyrkja hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Guðrún Björk Freysteinsdóttir var fulltrúi stjórnar í hópnum, sinnti undirbúningi og sat átta fundi vegna verkefnisins en nefndin úthlutaði tvisvar úr sjóðnum á starfsári stjórnar. Einnig sat fulltrúi félagsins áfram í starfshóp um Hvatningarverðlaun hjá skóla- og frístundasviði og var Hulda Valdís Valdimarsdóttir fulltrúi stjórnar. Hún sat einn fund vegna verkefnisins auk þess að sinna undirbúningi fyrir verkefnið en hvatningarverðlaunin voru afhent 13. maí sl.

 

Almennt kynningarstarf

Lítið var um markvisst kynningarstarf hjá félaginu. Aukið námskeiðshald bauð þó upp á þann möguleika að slá tvær flugur í einu höggi og kynna félagið samhliða námskeiðshaldinu. Einnig gafst áhugasömum tækifæri til að sækja um í félagið á námskeiðunum og voru talsvert margir sem nýttu sér það tækifæri og skilaði það félaginu nýjum félögum. Ritari félagsins var duglegur við að halda lífi í fésbókarsíðu félagsins og setja upplýsingar inn á heimasíðu. Sendur var jólaglaðningur til félaga fyrir jólin og voru það töskur með merki félagsins. Einnig voru keypt ritföng og þau merkt félaginu til að nota á námskeiðum. Það er þó ljóst að mörg sóknarfæri eru hvað varðar kynningarstarf fyrir félagið og hægt að gera mun betur í þeim efnum.

 

Lokaorð frá formanni

Á þessu stjórnarári fór mikil orka og tími í fræðslustarf félagsins en í fyrsta skipti frá stofnun þess var unnin formleg fræðsluáætlun fyrir veturinn. Það verður spennandi að þróa fræðslumálin áfram og vænlegur kostur að halda áfram því tilraunastarfi sem farið var af stað með í samstarfi við Háskóla Íslands. Stjórn hefur lagt áherslu á þátttöku í umræðu og samstarfi við þá sem starfa á vettvangnum og gerir sér grein fyrir að sóknarfærin fyrir félagið eru ótalmörg og verkefnin ærin. Ber þar helst að nefna stefnumótun í tómstunda- og æskulýðsmálum, útgáfu tómstundahandbókar fyrir þá sem sinna frístundastarfi, fræðsla og endurmenntun á vettvangi, enn meira samstarf við þá aðila sem vinna á vettvangi frítímans og almennt kynningarstarf félagsins. Það er þó þannig að á meðan allt starf á vegum félagsins er unnið í sjálfboðavinnu samhliða öðrum störfum þá eru verkefnin fleiri en hægt er að sinna með viljann einan að vopni. Áfram verður því að leita leiða til að virkja krafta félagsmanna í meira mæli en gert hefur verið og eru allar hjálparhendur vel þegnar. Formaður vill nota tækifærið og þakka samstarfsfólki sínu í stjórn og öðrum félagsmönnum fyrir ánægjulegt samstarf og þakka þeim sem lögðu félaginu lið á liðnu stjórnarári.

Fyrir hönd stjórnar Félags fagfólks í frítímaþjónustu

Hulda Valdís Valdimarsdóttir, formaður