Siðareglur

Siðareglur Félags fagfólks í frítímaþjónustu voru samþykktar á aðalfundi félagsins 28. maí 2009. Þær leysa af hólmi þau drög sem félagið hefur stuðst við frá stofnun þess.

Leiðarljós
Grundvöllur starfs fagfólks í frítímaþjónustu er virðing fyrir manngildi og sérstöðu hvers einstaklings og trú á getu hans til að nýta hæfileika sína til fulls.

Frumskyldur
1. Fagfólk í frítímaþjónustu stuðlar að því að einstaklingar fái notið jafnra tækifæra til innihaldsríks frítíma og leggur áherslu á heilbrigða lífshætti og forvarnir.

2. Fagfólk í frítímaþjónustu rækir starf sitt af fagmennsku og fer ekki í manngreinarálit.

3. Fagfólk í frítímaþjónustu kemur fram af heiðarleika og ber virðingu fyrir skoðunum, lífi og réttindum einstaklingsins.

4. Fagfólk í frítímaþjónustu leitast við að skapa vettvang fyrir einstaklinga til að ákvarða sjálfir í málefnum sem þá varðar. Jafnframt skal lögð áhersla á gott samstarf við forráðamenn ólögráða einstaklinga og leita samþykkis þeirra þegar við á.

5. Fagfólk í frítímaþjónustu skal kynna sér lög og reglugerðir sem um starfsvettvang gilda. Gæta skal trúnaðar og aðgætni við meðferð og vörslu persónuupplýsinga. Undantekningu frá þagnarskyldu má einungis gera af brýnni nauðsyn og í samræmi við lagaboð.

6. Fagfólk í frítímaþjónustu stundar starf sitt með faglega heildarsýn að leiðarljósi og viðheldur þekkingu sinni með því að fylgjast vel með nýjungum í starfi.

7. Fagfólk í frítímaþjónustu skal hafa frumkvæði að þróun fagstarfsins á ábyrgan og málefnalegan hátt og í samræmi við markmið félagsins.

8. Fagfólk í frítímaþjónustu hlýðir sannfæringu sinni og notar sérþekkingu sína til að ráðleggja öðrum. Það virðir og treystir sérþekkingu annarra faghópa þegar við á.

9. Fagfólk í frítímaþjónustu vinnur að því að skapa traust almennings á faglegri frítímaþjónustu og gerir ekkert sem rýrir orðstír fagsins né hópsins.

10. Félagi sem veit um brot starfsfélaga síns leitast við að leiðbeina viðkomandi með umræðu og leiðsögn. Alvarleg brot skal tilkynna þar til bærum yfirvöldum og stjórn félagsins.