Jákvæð sálfræði í frístundastarfi

Á fyrsta hádegisverðarfundi vetrarins sem verður haldinn þriðjudaginn 9. september nk. kl. 11:45 mun Hrefna Guðmundsdóttir, sálfræðingur, fjalla um jákvæða sálfræði í frístundastarfi. Hún mun gefa innsýn í jákvæða sálfræði og hvernig hana má nýta í frístundastarfi. Áhersla verður á að bera kennsl á jákvætt viðhorf, styrkleika og seiglu. Hrefna hefur áralanga reynslu af frístundastarfi hjá Reykjavíkurborg og hefur beint sjónum að mikilvægi þess að efla þátt jákvæðrar sálfræði í starfinu sem og annars staðar.

Fundurinn verður haldinn á Kaffi Sólon, Bankastræti 7a í Reykjavík. Fyrirkomulag fundarins er með þeim hætti að Hrefna mun fyrst flytja sitt erindi sem hefst kl. 11: 45 og breyttur fundartími kemur í kjölfar óska frá félagsfólki. Í kjölfar erindisins verða umræður. Undir umræðum mun gestum fundarins verða boðið upp á súpu og brauð í tilefni af fyrsta hádegisverðarfundi vetrarins. Áætlað er að fundinum ljúki eigi síðar en 12:45. Þeir sem vilja frekar geta nýtt sér matseðil Sólon á eigin kostnað og jafnframt geta fundargestir sem hafa tök á setið áfram yfir óformlegu spjalli eftir að fundi lýkur.

FFF hefur undanfarin ár staðið fyrir fræðslufundum fyrir félagsmenn en fundirnir hafa jafnframt verið opnir öðrum áhugasömum þannig að félagar eru hvattir til að taka með sér gesti.