Author Archives: admin

Fundargerð aðalfundur 15. maí 2013

Aðalfundur Félags fagfólks í frítímaþjónustu (FFF)

15. maí 2013 kl. 17:00

Staðsetning: Happ, Austurstræti

Mættir: Guðrún Björk Freysteinsdóttir, Hulda Valdís Valdimarsdóttir, Hrafnhildur Gísladóttir, Elísabet Pétursdóttir, Helgi Jónsson, Bjarki Sigurjónsson , Guðmundur Ari Sigurjónsson, Eygló Rúnardóttir, Steingerður Kristjánsdóttir, Árni Guðmundsson, Þorvaldur Guðjónsson, Þóra Melsted, Margrét Sigurðardóttir, Soffía Pálsdóttir.

Steingerður Kristjánsdóttir kosin fundarstjóri, þess má geta að hún er fyrsti formaður félagsins.

 1. 1.     Skýrsla stjórnar
 2. 2.     Skýrslur hópa og nefnda

Hulda Valdís flytur dagskrárliði 1 og 2 saman í einni skýrslu. Síðasti aðalfundur var þann 15. maí 2012. Haldnir voru tíu fundir stjórnar og einn fundur þar sem unnið var að starfsáætlun.

Stofnuð var fræðsluefnd þar sem Eygló Rúnarsdóttir og Jakob Frímann sátu ásamt fulltrúa stjórnar – megintilgangurinn var að koma með tillögur að fræðslu fyrir félagsmenn. Unnin var fræðsluáætlun.

Framtíðarvangaveltur nefndarinnar fólust m.s. í að setja viðmið varðandi fjölda námskeiða á ári sem fræðslunefnd hefur að leiðarljósi.

Tómstundahandbókin – samstarfsverkefni FÍÆT, Samfés, HÍ og fleiri hagsmunaaðila. Þessi vinna mun halda áfram. Búið að vera erfitt að koma vinnunni af stað en búið að vinna ákveða þarfagreiningu.

Kompás – farið yfir námskeið og vinnustofur.

Enn er beðið eftir Compasito bókin kom út á íslensku, á að koma út á þessu ári.

Samstarfsverkefni félagsins í margs konar samstarfi. Samstarfssamningur FFF, FÍÆT, SFSÍ og Samfés. Tekinn fyrir undir önnur mál þar sem breytingartillaga kom frá síðasta aðalfundi FÍÆT.

Fulltrúi félagsins í skóla- og frístundaráði Rvk. borgar er Helgi Eiríksson en hann hefur setið 37 fundi og telur mjög þarft fyrir frístundastarfið að eiga þarna sinn fulltrúa.

Íslenskar æskulýðsrannsóknir – málþingið aftur haldið á virkum degi og góð þátttaka.

Stefnumótun í æskulýðsmálum – kynning hjá Æskulýðsráði í desember. Ætlunin að óska, ásamt samstarfsaðilum, eftir fundi með ráðherra vegna þessa en ákveðið var að bíða fram yfir kosningar.

Æskulýðsvettvangurinn – vilji til samstarfs vegna námskeiða. Vinnustofur Kompás á landsvísu. Í haust verður gerð áætlun fyrir næsta ár.

Frítíminn.is – FFF átti fulltrúa í undirbúningsfundi vegna vefmiðilsins en ritnefnd starfar með þriggja manna ritstjórn. Fagfélagið styrkti hýsingu á léni fyrsta árið til að koma þessum frábæra vefmiðli af stað.

Þóra Melsted (aðalmaður) og Þorvaldur Guðjónsson (varamaður) tilnefnd af hálfu FFF í hóp á vegum MMR sem skoðar hvort ramma þarf betur inn starf frístundaheimila.

Náum áttum – Elísabet Pétursdóttir hefur verið okkar fulltrúi þarna inni. Sjö fræðslufundir hafa verið sl. ár. Þessi hópur hefur staðið fyrir mánaðarlegum morgunverðarfundum.

Þróunarstyrkir skóla- og frístundaráðs Rvk. borgar – Guðrún Björk sat í starfshóp vegna þeirra. Tvær úthlutanir hafa verið á starfsári stjórnar.

Hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs Rvk. borgar – Hulda Valdís sat í starfshóp vegna þeirra.

Stjórn hefði viljað geta lagt meiri vinna í kynningu á félaginu.

Fengum nýja félagsmenn í gegnum kynningar á þeim námskeiðum og vinnustofum sem félagið hélt.

Starfið litaðist mikið af fræðslutilboðum á vegum félagins og mikill tími og orka sem fór í þau mál.

Stjórn vill leggja meiri áherslu á samstarf við aðila á vettvangnum.

Fullt af hugmyndum um að gera betur.

Hulda þakkar alla þá aðstoð sem félagið hefur fengið.

Spurningar.

Eygló vill þakka stjórn fyrir flott störf- tökum því fagnandi.

Skýrsla stjórnar er samþykkt með lófataki.

 1. 3.     Reikningar félagsins

Gengið hefur vel að eyða þeim peningum sem ætlaðir voru í námskeið enda félagið virkt í fræðslu.

Farið yfir ársreikninga. Helgi Jónsson gjaldkeri félagsins fer yfir fjármálin með félögum.

Reikningar samþykktir einróma.

 1. 4.     Starfsáætlun og fjárhagsáætlun næsta árs

Hulda Valdís segir frá því að meginhugmyndin sé að gera sem mest fyrir sem minnstan pening. Félagið mun aftur gera fræðsluáætlun og haldið verður áfram með þau samstarfsverkefni sem eru í gangi.

Margrét spyr varðandi kynningarmál félagsins, spurning með nýja stéttarfélag tómstundafræðinga og hvort fólk sé þar og komi ekki í félagið vegna þess að þeir viti ekki muninn á stéttarfélagi og fagfélagi. Umræður. Ari segir frá því að stéttarfélagið hafi komið með kynningu inn í tómstundafræðina í HÍ. Árni vill kynningu í námið eins og var hér áður. Elísabet segist ekki hafa fengið þau viðbrögð sem hún hafði vonast eftir hjá nemum í HÍ sem sátu Kompás-námskeið í febrúar. Frítíminn er vettvangur til að vekja athygli á FFF og fleiri  félögum. Árni vill fá viðburðardagatal fyrir öll félög á einn stað og Ari og Bjarki eru að gera slíkt á frítíminn.is.

 1. 5.     Árgjald

Allir eru sáttir við núverandi árgjald sem er 2500 krónur, samþykkt einróma.

 1. 6.     Lagabreytingar og skipulag

Ein lagabreytingartillaga barst og snýr hún að 5. grein.

Árni Guðmunds kemur með breytingartillögu um að þarna séu of margir taldir fram miðað við fjölda í stjórn. Kjósa skal tvo annað hvert ár en ekki fjóra.  Breytingartillagan á breytingartillöguna er einróma samþykkt og eftir breytingar hljóðar 5. grein svona:

Stjórnarkjöri skal haga þannig:

Kjósa skal formann í sérstakri kosningu og er kjörtímabilið eitt ár.

Kjósa skal 4 stjórnarmeðlimi að auki sem skipta með sér verkum. Kjörtímabilið eru tvö ár og kjósa skal tvo  á hverjum aðalfundi.

Kjósa skal 2 í varastjórn og er kjörtímabilið eitt ár.

Kjósa skal 2 skoðunarmenn reikninga og kjörtímabilið er eitt ár.

 

 1. 7.     Kosning stjórnar og varamanna

Í framboði eru:

Hulda sem formaður.

Guðrún og Helgi sitja áfram.

Elísabet og Hrafnhildur eru að klára sín tímabil, Hrafnhildur ætlar ekki að bjóða sig fram aftur en Elísabet gefur kost á sér aftur til tveggja ára.

Bjarki Sigurjónsson gefur kost á sér í stjórn til tveggja ára.

Guðmundur Ari Sigurjónsson gefur kost á sér sem varamaður.

Stungið er upp á Nilsinu Larsen sem varamanni.

Öll framboð eru samþykkt einróma en framboð Nilsinu með fyrirvara um að hún samþykki.

Ólafur Þór og Árni Guðmundsson bjóða sig áfram fram sem skoðunarmenn reikningar.

 1. 8.     Önnur mál
  1. Samstarfssamningur FÍÆT, Samfés og SFSÍ – gerð var breytingartillaga á samningnum um að fulltrúum félaganna er boðinn seturéttur á aðalfundum hvers annars með tillögurétt og málfrelsi undir fyrirfram ákveðnum málum sem sterta samstarf félaganna. Þessi breytingartillaga er samþykkt einróma.
  2. Guðmundur Ari kemur með tillögu um að breyta um hýsingaraðila fyrir heimasíðu til að lækka kostnað og vinna einnig nýja heimasíðu fyrir félagið. Umræður. Einróma samþykkt.

Fundi slitið kl. 18:15

Guðrún Björk ritar fundargerð.

 

Skýrsla stjórnar Félags fagfólks í frítímaþjónustu starfsárið 2012-2013

Skýrsla stjórnar Félags fagfólks í frítímaþjónustu starfsárið 2012-2013

Á aðalfundi félagsins þann 15. maí 2012  var ný stjórn kosin. Hulda Valdís Valdimarsdóttir, þáverandi formaður, gaf kost á sér til áframhaldandi setu sem formaður og var sjálfkjörin. Guðrún Björk Freysteinsdóttir og Helgi Jónsson. sem höfðu bæði setið í stjórn sl. stjórnarár, gáfu aftur kost á sér og voru kosin til tveggja ára. Hrafnhildur Gísladóttir og Elísabet Pétursdóttir sátu sitt seinna ár í stjórn en þær höfðu verið kosnar til tveggja ára á aðalfundi félagsins 2011. Í varastjórn félagsins voru kosnir þeir Bryngeir Arnar Bryngeirsson og Björn Finnsson. Skoðunarmenn reikninga voru kosnir þeir Árni Guðmundsson og Ólafur Þór Ólafsson. Fyrsti fundur nýkjörinnar stjórnar var haldinn 3. september en samkvæmt lögum félagsins skal stjórn félagsins skipuð formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda og varð skipun stjórnar, sem er óbreytt frá fyrra ári, eftirfarandi:

Formaður: Hulda Valdís Valdimarsdóttir

Varaformaður: Elísabet Pétursdóttir

Gjaldkeri: Helgi Jónsson

Ritari: Guðrún Björk Freysteinsdóttir

Meðstjórnandi: Hrafnhildur Gísladóttir

 

Alls hélt stjórnin tíu formlega stjórnarfundi, þar af einn fund þar sem m.a. var unnið að starfsáætlun. Stjórnin mótaði áherslur í starfi í kjölfar þeirrar vinnu og voru þau verkefni sem stjórnin vann að þessi helst:

 

Fræðslumál

Sú hugmynd var samþykkt á aðalfundi félagsins að stofnuð yrði fræðslunefnd í samstarfi við stjórn til að skoða fræðslumál félagsins. Á fundinum gáfu Eygló Rúnarsdóttir og Jakob Þorsteinsson kost á sér til setu í nefndinni. Í erindisbréfi  um skipan nefndarinnar voru tilgreind meginmarkmið með starfi nefndarinnar en þau voru eftirfarandi:

 • Koma með tillögur að fræðslu fyrir félagsmenn í vetur.
 • Leggja fram hugmyndir um hvernig best gæti verið að útfæra slíka fræðslu, þ.e. hvar og hvenær slík fræðsla stæði félagsmönnum til boða.
 • Skoða fræðslumál félagsins til framtíðar og koma með hugmyndir þar að lútandi.
 • Kynna sér stofnun orðanefndar.

Tengiliður við stjórn var Hulda Valdís Valdimarsdóttir og hún sá um að boða aðra fulltrúa til funda. Nefndin fundaði fjórum sinnum og átti þess á milli í reglulegum tölvupóstsamskiptum. Markmiðin sem nefndinni voru sett náðust að mestu leiti. Lögð var  fram fræðsluáætlun sem samanstóð af Kompás/Compasito námskeiðum og vinnustofum, hádegisverðarfundum ásamt námskeiðum um reynslunám og félagsmálafræði.  Farið var í samstarf við tómstunda- og félagsmálafræðibraut í Háskóla Íslands og gerð tilraun um samstarf varðandi tvö námskeið. Unnið var að stofnun orðanefndar í samstarfi við Háskóla Íslands og er það mál komið í farveg. Nefndin setti einnig niður vangaveltur um framtíðina og voru þær þessar helstar:

 • Vera með ákveðið form sem fræðslunefnd fyllir inn í  fyrir hvern vetur eða ákveða heildarfjölda tilboða yfir veturinn og vinna út frá því.
 • Kynna fyrir félögum þá möguleika sem eru í boði til að taka stök námskeið hjá HÍ. T.d. er ein hugmyndin sú hjá HÍ að vera með ákveðin námskeið á meistarastigi í félagsmála- og tómstundafræði opin og þá hægt að taka stök námskeið samhliða starfi.
 • Áframhaldandi vinna varðandi orðanefndina er mikilvæg.
 • Áframhaldandi vinna varðandi tómstundahandbókina í samstarfi við Samfés, FÍÆT og HÍ. Spurning hvaða flöt eða stefnu á að taka í því máli og jafnvel huga að þýðingum eða tengingu við lokaverkefni í HÍ.
 • Ein hugmynd að vera með fasta hádegisverðarfundi mánaðarlega í samstarfi við fleiri aðila sem t.d. skipta því á milli sín að skipuleggja fundina eða þá að tengiliðir hittast og skipuleggur veturinn saman. Svipuð hugmynd og hjá Náum áttum en spurning hvort ekki væru um að ræða skörun við það verkefni.
 • Margir möguleikar vegna fræðslumála í samstarfi við aðra aðila sem einnig eru að sinna frístundastarfi, t.d. samstarf við Samfés og Æskulýðsvettvanginn, og þetta samstarf væri hægt að rækta betur en nú er gert.

 

Kompás/Compasito

Framhald var á samstarfi félagsins við mennta- og menningarmálaráðuneytið vegna námskeiða um mannréttindafræðsluefnið Kompás en félagið fékk formlegan styrk til að sinna þessu verkefni í janúar 2012 og var eitt námskeið haldið á síðasta starfsári stjórnar. Markmið námskeiðanna er að kynna hugmyndafræði Kompás fyrir starfsfólki sem vinnur með börnum og ungmennum á vettvangi frítímans.

Fyrirhugað var að halda þrjú leiðbeinendanámskeið á þessu stjórnarári en því miður þurfti að fella niður námskeiðið á Akureyri á haustmánuðunum vegna þátttökuleysis en haldið var námskeið á Akranesi í janúar og annað í Reykjavík í lok febrúar. Námskeiðið í Reykjavík var haldið í samstarfi við tómstunda- og félagsmálafræðibraut Háskóla Íslands. Eins og áður var það Pétur Björgvin Þorsteinsson sem var leiðabeinandi á námskeiðunum en hann hefur viðtæka reynslu af notkun bókarinnar. Í mars var svo prófuð sú nýbreytni að bjóða þeim sem búnir voru að fara á námskeið upp á stutta vinnustofu í þeim tilgangi að styrkja sig ennfrekar í lýðræðis- og mannréttindafræðslunni og skapa vettvang til að vinna með fleiri leiki og verkefni. Fyrirhugað var að halda aðra slíka vinnustofu í apríl en hún féll því miður niður vegna þátttökuleysis. Mikil ánægja var bæði með námskeiðin og vinnustofuna. Stjórnin samþykkti á síðasta starfsári að auglýsa eftir aðila innan félagsins til að taka að sér að halda utan um, skipuleggja, kynna og hafa umsjón með frekara námskeiðshaldi og átti hluti af umræddum styrk að fara í að greiða laun fyrir þá vinnu en því miður fékkst enginn innan félaginn í það verkefni og því sinnti stjórnin þessu verkefni sjálf samhliða öðrum verkefnum. Mennta- og menningarráðuneytið hafði áætlað að gefa út Compasito, mannréttinda- og lýðræðisfræðsla fyrir 9-13 ára börn, í mars 2013 en því miður gekk sú áætlun ekki eftir en vonir standa til að bókin komi út í íslenskri þýðingu síðar á árinu.

 

Samstarf

Mikil áhersla var á samstarf af ýmsum toga sl. stjórnarár og þau eru mörg sóknarfærin sem felast í auknu samstarfi þeirra aðila sem starfa með börnum og ungmennum í frítímanum. Hér verður farið yfir helstu samstarfsverkefnin á stjórnarárinu:

 • Félagið á áheyrnarfulltrúa í Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur. Fulltrúar félagsins í ráðinu eru Helgi Eiríksson og Jóhannes Guðlaugsson er til vara.  Frá því að FFF fékk áheyrnarfulltrúa í ráðinu, í nóvember 2011, hafa verið haldnir 40 fundir og Helgi setið 37 af þeim en kallað inn varamann á þrjá fundi. Helgi hefur sem áheyrnarfulltrúi beitt sér í ýmsum málum frístundastarfi til framdráttar og þá helst þegar honum hefur þótt þurfa að gæta jafnræðis á milli málaflokka sviðsins og í umræðum um starfs- og fjárhagsáætlun. Áheyrnarfulltrúi hefur ekki atkvæðisrétt en hefur möguleika á að setja inn bókanir í fundargerð og tvisvar hefur Helgi boðað bókun en dregið hana til baka eftir að komið hefur til móts við sjónarmið frístundastarfsins. Helgi telur mikilvægt að sjónarmið frístundastarfsins eigi rödd á þessum vettvangi en telur þó ákveðið ójafnvægi í hópi áheyrnarfulltrúa þar sem hann er eini fulltrúi frístundastarfsins.
 • Félagið var þriðja árið í röð samstarfsaðili um Íslenskar æskulýðsrannsóknir en ráðstefnan var haldin í þriðja sinn 30. nóvember 2012. Mörg áhugaverð erindi voru á ráðstefnunni og það virtist hafa jákvæð áhrif á þátttökuna að ráðstefnan var nú aftur haldinn á virkum degi.
 • Samstarfssamning vegna aukins samstarfs FFF, Samfés, FÍÆT og SFSÍ var samþykktur á síðasta aðalfundi FFF með smávægilegum athugasemdum. Samningurinn var jafnframt lagður fyrir til samþykktar á öðrum aðalfundum og vegna þeirra ábendinga sem gerðar voru við samninginn er verður hann aftur lagður fyrir til samþykktar á aðalfundi 2013. Meginmarkmið samningsins er að samræma áherslur og verkefni  sem félögin taka að sér og auka samstarf félaganna í þeim tilgangi að stuðla að farsælu og faglegu barna og ungmennastarfi. Sótt hafði verið um styrk í Æskulýðssjóð vegna samstarfsverkefnisins og þess kostnaðar sem af auknu samstarfi kann að hljótast fyrir félögin en sá styrkur fékkst ekki. Fulltrúi stjórnar sat fræðsluerindi sem haldið var í tengslum við aðalfund FÍÆT 3. maí 2013.  Í framhaldi af kynningu æskulýðsráðs í desember sl. um stefnumótun í æskulýðsmálum var ákveðið að skrifa sameiginlegt bréf til mennta- og menningarmálaráðuneytis til að leggja áherslu á mikilvægi þess að standa vel að þeim málaflokk sem æskulýðsmálin eru og óska eftir fundi með ráðherra vegna málsins. Þetta var sérstaklega  gert í ljósi þess að ekki voru haft nægilegt samráð við ákveðna lykilaðila af hendi æskulýðsráðs í vinnuferlinu. Ákveðið var að bíða með að senda bréfið þar til eftir kosningar nú í apríl til að auka líkur á viðbrögðum frá ráðuneytinu.
 • Fulltrúi FFF hitti fulltrúa frá HÍ og FÍÆT vegna áhuga á að vinna gerð handbókar fyrir starfsfólk sem vinnur með börnum og ungmennum á vettvangi frítímans en Alfa Aradóttir, fulltrúi FÍÆT, hafði á síðasta starfsári fundað með stjórn FFF og kynnti handbókarhugmyndina. Unnin hefur verið ákveðin þarfagreining um innihald handbókarinnar en ennþá hefur ekki verið endanlega ákveðið hvort ráðist verður í skrif eða hvort reynt verður að finna erlent rit til þýðingar. Áframhaldandi samstarf er fyrirhugað vegna þessa þarfa verkefnis.
 • Fulltrúi stjórnar sat undirbúningsfund vegna stofnunar vefmiðilsins Frítíminn.is en meginmarkmið með stofnun hans er að vera umræðuvettvangur um tómstunda- og félagsmálafræði og frítímastarf á Íslandi og kynna rannsóknir á sviði frítímastarfs. Ritnefnd mun starfa með þriggja manna ritstjórn og mun FFF tilnefna fulltrúa í ritnefnd. Sótt var um styrk til FFF til að standa undir kostnaði við hýsingu á léni vefmiðilsins fyrsta árið og var orðið við þeirri ósk. Bindur stjórn miklar vonir við þennan nýja miðil og vonast til að að hann verði frítímastarfi til enn frekari framdráttar og kynningar.
 • Fulltrúi stjórnar sat fund með fulltrúa frá Æskulýðsvettvangnum vegna Kompás/Compasito á vormánuðum. M.a. var rætt um áhuga á samstarfi vegna Kompás/Compasito-námskeiða og vinnustofa. Niðurstaða fundarins var að áhugi er hjá báðum félögum að vinna sameiginlega að námskeiðum og vinnustofum vegna Kompás og Compasito og mun útfærsla á því samstarfi liggja fyrir næsta haust.
 • Kolbrún Pálsdóttir og Þóra Melsted höfðu fyrir nokkru fundað með menntamálaráðherra vegna málefna frístundaheimila og í framhaldinu setti ráðuneytið á fót starfshóp þar sem markmiðið er að skoða hvort þörf sé á að ramma betur inn starfsemi frístundaheimila. Óskað var eftir fulltrúum FFF í hópinn og aðalfulltrúi er Þóra Melsted og varafulltrúi er Þorvaldur Guðjónsson. Bæði hafa þau mikla þekkingu á starfi frístundaheimila. Fyrsti fundur hópsins var haldinn 8. maí sl. og mætti Þorvaldur á þann fund þar sem Þóra var stödd erlendis en þar var rætt um verkefni hópsins og væntingar þeirra sem höfðu tök á að mæta. Næsti fundur hópsins verður haldinn 4. júní nk. Fyrirhugað er að fá kynningu fyrir hópinn á því hvernig málum frístundaheimila er háttað í Berlín en Þóra var þar í heimsókn á dögunum og einnig að fá Kolbrúnu til að vera með kynningu á doktorsverkefni sínu sem snýr að starfi frístundaheimila í Reykjavík og starfsfólkinu þar. Það verður áhugavert að fá að fylgjast með því hvernig hópnum gengur að vinna að þessu þarfa verkefni.
 • Félagið á fulltrúa í Náum áttum sem er opinn forvarnarhópur um fræðslu og forvarnir. Hópurinn stendur fyrir morgunverðarfundum um málefni sem tengjast forvörnum og velferð barna og ungmenna, alls hafa sex fræðslufundir verið haldnir á stjórnarárinu.  Elísabet Pétursdóttir hefur setið í nefndinni í vetur fyrir hönd félagsins.
 • Fulltrúi frá félaginu sat þriðja árið í röð í úthlutunarnefnd almennra styrkja og þróunarstyrkja hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Guðrún Björk Freysteinsdóttir var fulltrúi stjórnar í hópnum, sinnti undirbúningi og sat átta fundi vegna verkefnisins en nefndin úthlutaði tvisvar úr sjóðnum á starfsári stjórnar. Einnig sat fulltrúi félagsins áfram í starfshóp um Hvatningarverðlaun hjá skóla- og frístundasviði og var Hulda Valdís Valdimarsdóttir fulltrúi stjórnar. Hún sat einn fund vegna verkefnisins auk þess að sinna undirbúningi fyrir verkefnið en hvatningarverðlaunin voru afhent 13. maí sl.

 

Almennt kynningarstarf

Lítið var um markvisst kynningarstarf hjá félaginu. Aukið námskeiðshald bauð þó upp á þann möguleika að slá tvær flugur í einu höggi og kynna félagið samhliða námskeiðshaldinu. Einnig gafst áhugasömum tækifæri til að sækja um í félagið á námskeiðunum og voru talsvert margir sem nýttu sér það tækifæri og skilaði það félaginu nýjum félögum. Ritari félagsins var duglegur við að halda lífi í fésbókarsíðu félagsins og setja upplýsingar inn á heimasíðu. Sendur var jólaglaðningur til félaga fyrir jólin og voru það töskur með merki félagsins. Einnig voru keypt ritföng og þau merkt félaginu til að nota á námskeiðum. Það er þó ljóst að mörg sóknarfæri eru hvað varðar kynningarstarf fyrir félagið og hægt að gera mun betur í þeim efnum.

 

Lokaorð frá formanni

Á þessu stjórnarári fór mikil orka og tími í fræðslustarf félagsins en í fyrsta skipti frá stofnun þess var unnin formleg fræðsluáætlun fyrir veturinn. Það verður spennandi að þróa fræðslumálin áfram og vænlegur kostur að halda áfram því tilraunastarfi sem farið var af stað með í samstarfi við Háskóla Íslands. Stjórn hefur lagt áherslu á þátttöku í umræðu og samstarfi við þá sem starfa á vettvangnum og gerir sér grein fyrir að sóknarfærin fyrir félagið eru ótalmörg og verkefnin ærin. Ber þar helst að nefna stefnumótun í tómstunda- og æskulýðsmálum, útgáfu tómstundahandbókar fyrir þá sem sinna frístundastarfi, fræðsla og endurmenntun á vettvangi, enn meira samstarf við þá aðila sem vinna á vettvangi frítímans og almennt kynningarstarf félagsins. Það er þó þannig að á meðan allt starf á vegum félagsins er unnið í sjálfboðavinnu samhliða öðrum störfum þá eru verkefnin fleiri en hægt er að sinna með viljann einan að vopni. Áfram verður því að leita leiða til að virkja krafta félagsmanna í meira mæli en gert hefur verið og eru allar hjálparhendur vel þegnar. Formaður vill nota tækifærið og þakka samstarfsfólki sínu í stjórn og öðrum félagsmönnum fyrir ánægjulegt samstarf og þakka þeim sem lögðu félaginu lið á liðnu stjórnarári.

Fyrir hönd stjórnar Félags fagfólks í frítímaþjónustu

Hulda Valdís Valdimarsdóttir, formaður

Ný heimasíða!

fff síðanÁ síðastliðnum aðalfundi var samþykkt að farið væri í að útbúa nýja heimasíðu fyrir Fagfélagið. Ný stjórn fór í málið í á fyrsta fundi sínum og var hönnun nýrrar heimasíðu sett í hendur Guðmundar Ara Sigurjónssonar.

Nýja heimasíðan á að vera einföld og þægileg í notkun þar sem auðvelt er að finna þær upplýsingar sem meðlimir félagsins ásamt öðrum vilja nálgast. Á síðunni birtast fréttir úr starfinu, skýrslur og fundargerðir stjórnar ásamt almennum upplýsingum um félagið. Einnig hefur verið sett upp einfalt skráningarform efst á síðuna þar sem hægt er að sækja um aðild að félaginu.

Ef þú hefur ábendingar varðandi sniðugt efni á síðuna eða vilt skrifa inn grein fyrir síðuna hvetjum við þig til að senda póst á fagfelag@fagfelag.is.

 

Aðalfundur FFF 2013

Nýkjörin stjórn (á myndina vantar Nilsínu Larsen)

Nýkjörin stjórn (á myndina vantar Nilsínu Larsen)

Miðvikudaginn 15 maí síðastliðinn hélt Félag Fagfólks í Frítímaþjónustu aðalfund sinn á veitingastaðnum Happ í Austurstræti. Fundurinn var vel sóttur og var á nægu að taka enda viðburðaríkt ár að baki. Ásamt öðrum aðalfundarstörfum var ný stjórn félagsins kosin en hana skipa:

Hulda Valdís Valdimarsdóttir, formaður
Elísabet Pétursdóttir, varaformaður
Helgi Jónsson, gjaldkeri
Guðrún Björk Freysteinsdóttir,ritari
Bjarki Sigurjónsson,meðstjórnandi
Guðmundur Ari Sigurjónsson,varastjórn
Nilla Einarsdóttir, varastjórn

Skýrslu stjórnar FFF fyrir starfsárið 2013-2013 má nálgast hér á síðunni undir “Skýrslur og fundargerðir” og einnig hér fyrir neðan. Árið var viðburðarríkt  og skýrslan vel unnin. Í skýrslunni er farið yfir starfsárið, fundi stjórnar og þau verkefni sem unnin voru á árinu. Í skýrslunni er meðal annars fjallað um:

 • Fræðslumál
 • Kompás/Compasito
 • Samstarf
 • Almennt kynningarstarf
 • Lokaorð frá formanni

Skýrsla stjórnar FFF 2012-2013 í heild sinni.

 

Fundur stjórnar 8. apríl 2013

FFF 8. apríl 2013

Mættir: Hulda Valdís, Elísabet Pétursdóttir og Guðrún Björk.

1. Kompás vinnustofa 18. apríl.
Ákveðið er að færa vinnustofuna til 23. apríl kl. 15-18 og Elísabet ætlar að athuga hvort Hitt húsið sé laust. Kostnaður er 1000 krónur á haus og eru léttar veitingar innifaldar. Athuga þarf fjárhagslegt svigrúm FFF vegna Kompás og athuga með bókakaup.

2. Reynslumiðað nám
Hulda fór á námskeiðið og var það mjög skemmtilegt og gekk vel. Fólk vill meira af þessu og almenn ánægja var með námskeiðið. Björn sem sá um námskeiðið er kominn með hugmynd að öðru námskeiði þar sem fókusinn er settur á þig sem leiðbeinanda. Námskeiðið var fullt.

3. Fræðslunefnd
Fundur 7. mars s.l. Hugmynd um að koma á tengingu við meistaranám í tómstundafræðum frá og með næsta hausti, þarf að skoða útfærslu á því. Hámarkskostnaður sem fagfélagið tekur á sig vegna námskeiðið „Félagsmála hvað?“ eru 30 þúsund krónur sem renna í námsefnisgerð. Fólk borgar 10 þúsund krónur sjálft á haus ef það eru félagar annars 15 þúsund. Námskeiðið er 16. og 18. apríl n.k. og er Árni Guðmundsson með það.

4. Hádegisverðarfundur í apríl.
Vegna anna verður að fresta honum fram í lok maí. Nánar rætt síðar.

5. Hvatningarverðlaun SFS
Hulda situr í nefndinni sem fulltrúi félagsins vegna úthlutunar verðlaunanna.

6. Umsóknir í félagið
Ásta Lára Jónsdóttir – umsókn samþykkt vegna starfsreynslu.
Tinni Kári Jóhannessson – umsókn samþykkt vegna starfsreynslu.
Andrea Marel Þorsteinsdóttir – umsókn samþykkt vegna starfsreynslu og menntunar.
Erla Bára Ragnarsdóttir – umsókn samþykkt vegna starfsreynslu og menntunar.
Elva Hrund Þórisdóttir – umsókn samþykkt vegna menntunar.

Þess að auki var komin beiðni um að ganga í FFF-hópinn á facebook en allir þar verða að vera félagar til þess að fá samþykki og verður viðkomandi bent á það.

7. Lagabreytingartillaga
Bryngeir sendi inn lagabreytingartillögu fyrir hönd stjórnar. Umræður. Stjórn styður tillögu Bryngeirs sem barst, spurning um lítilsháttar orðalagsbreytingar. Stjórnarmenn eru beðnir um að lesa yfir lögin og koma með athugasemdir.

8. Skýrslur/umsagnir fyrir aðalfund þurfa að berast fyrir 1. maí

 • Kompás
 • Fræðslunefnd
 • N8
 • Þróunarsjóður SFS
 • Hvatningarverðlaun SFS
 • Áheyrnarfulltrúi í SFS ráðinu

Hulda óskar eftir upplýsingum frá tengiliðum.

9. Æskulýðsvettvangurinn
Elísabet fór og hitti Ragnheiði hjá Æskulýðsvettvanginum. Þau hafa áhuga á að vera með í vinnustofunni um Kompás. Umræður. Bætt verður inn texta á auglýsinguna um að þetta sé samvinnuverkefni.

10. Stjórn FFF
Umræður um endurnýjun í stjórn.

11. Sumarglaðningur
Guðrún ætlar að athuga með skemmtilegan sumarglaðning fyrir aðalfund.

12. Aukafundur
Stefnt er að hafa aukafund fyrir aðalfund þann 29. apríl n.k.kl.11:15.  Dagsetning til vara er 6. maí.

Fundi slitið kl. 12:45
Fundargerð ritar Guðrún Björk Freysteinsdóttir

Fundur stjórnar 4. mars 2013

Fagfélag fólks í frítímaþjónustu
Stjórnarfundur 4. mars 2013
Mættir: Hulda, Hrafnhildur, Elísabet og Guðrún.

1. Kompás – námskeið
Umræður um síðasta námskeið og punktar varðandi framhaldið.

Betra að vera í Gufunesbæ en í HÍ, betra umhverfi fyrir þessa fræðslu. Hefði þuft að koma nemunum betur inn í málin. Umræður. 33 voru á námskeiðinu en Pétur miðar við að ekki séu fleiri en 25 á hverju námskeiði. Spurning um að gera kröfu um að þátttakendur hafi lesið fyrstu 20 blaðsíðurnar áður en farið er á námskeiðið.

EP er með listann og netföng, Hulda tekur það og sendir á Helga til innheimtu. EP er búin að senda í síðustu viku á Helga vegna útlagðs kostnaðar í tengslum við Kompás á Akranesi í en hefur ekkert heyrt í honum.

Félagið kaupir gögn af Pétri Björgvini sem hann hefur notað í kennslunni. Hulda fer með punkta vegna námskeiðsins á fund með fræðslunefnd á fimmtudag.

2. Aðildarumsóknir

1) Sigrún Kristínardóttir Valsdóttir – samþykkt út frá menntun.

2) Guðmundur Ari Sigurjónsson – samþykkt út frá starfsreynslu.

3) Herdís Snorradóttir – samþykkt út frá starfsreynslu.

4) Þorleifur Örn Gunnarsson – samþykkt út frá menntun.

5) Tinna Heimisdóttir – samþykkt út frá menntun.

6) Álfheiður Ólafsdóttir – samþykkt út frá starfsreynslu.

7) Björg Blöndal – samþykkt út frá starfsreynslu.

3. Reynslumiðað nám í frístundastarfi
Tíu manns eru nú skráðir á námskeiðið þann 12. mars í Gufunesbæ. Námskeiðið lækkar í 18.000 fyrir félagsmenn en 23.000 fyrir aðra. Athuga skráningu á facebook og senda þeim póst og athuga hvort skráning standi. 15 manns er hámark í skráningu. EP sendir matsblöð á Huldu til að nota á námskeiðinu. Hulda fer sem fulltrúi stjórnar.

4. Æskulýðsvettvangurinn
Ætlar að sækja um styrk til að halda leiðbeinandanámskeið í Kompás og Compasito í haust. Þetta verður langt námskeið. Af hverju ekki að gera þetta í samstarfi? Umræður um málið. Fagfélagið hefur áhuga á að fá sæti á námskeiðinu. Elísabet hittir Ragnheiði og fer yfir þessi mál.

5. Frítíminn
Styrkumsókn barst vegna hýsingar á fritiminn.is – tæpar 19.000 krónur – umsóknin var samþykkt. Einnig er óskað eftir fulltrúa úr stjórn í ritnefnd. Umræður. Tilnefna eftir aðalfund. Hulda er til í að hitta þau aftur fram að því. Félagið fagnar þessu framtaki.

6. Skipunarbréf frá MRN
Þóra Melsted aðalfulltrúi og Þorvaldur til vara. Þetta er vegna ramma/laga vegna starfsemi frístundaheimilin. Umræða um starf hópsins.

7. Vinnustofur Kompás/Compasito
Gunnlaugur Bragi Bragason tekur að sér að vera með vinnustofuna 19. mars kl. 15-18.  Svo er 18. apríl næsta vinnustofa. Ásta Lára Jónsdóttir var til í að skoða að vera með vinnustofuna en verður þá að fara á vinnustofu hjá Gunnlaugi. Umræður um að fá þau til að vera saman með Kompás námskeið? Athuga með hvort Gufunesbær sé laus – Hulda í sambandi við Elísabetu vegna þessa. Sendum út auglýsingu sem fyrst. Um er að ræða vinnustofa fyrir þá sem hafa sótt Kompás námskeið. Skráning fyrir 13. mars á fyrri vinnustofuna og kostnaður 1000 krónur.

8. Stjórn
Umræður um aðalfund. 15. maí hentar betur en að halda fundinn viku síðar. Þarf að huga að fundastjóra o.fl. vegna fundarins. Guðrún sér um að finna og bóka fundastað.

9. Uppgjör til MRN
Löggildan endurskoðanda þarf til að votta að styrknum hafi verið rétt varið.  Guðrún athugar með verð.

Næsti fundur er 8. apríl 2013 kl. 11.15
Fundi slitið kl. 12:45
Guðrún ritar fundargerð

 

Starfsdagur stjórnar 2. nóvember 2012

Félag fagfólks  í frítímaþjónustu
Starfsdagur 2. nóvember kl. 9-12
Mættir: Hulda, Guðrún, Elísabet og Helgi
Hrafnhildur boðaði forföll

Fræðslunefnd – fundaði 23. október
Farið var yfir erindisbréfið og markmiðin.
Kynna á sér stofnun íðorðanefndar. Farið á fund með ráðgjafa uppi í HÍ.
Hvað getum við gert í vetur? Hvað getum við gert til framtíðar?
Hluti af námskeiðum í tómstunda- og félagsmálafræði opin félagsmönnum FFF.  Verið að skoða hvaða námskeið það verða og dagsetningar.
Reynslunám, spurning um að halda dagsnámskeið þar sem fjallað er um  reynslumiðað nám.
Skila á áætlun 15. nóvember í stað 1. nóvember.
Hulda setur fundargerð nefndarinnar á dropboxið.
Kompás og Compasito  námskeið
Námskeið á Akureyri í nóvember og á Akranesi í janúar.
Umræða um hversu margir utan félags megi sækja Kompás námskeið en námskeiðin hafa verið opin öðrum. 25 pláss eru leyfilegur fjöldi á námskeið. Fagfélagið ætlar að halda þessu opnu en þeir sem ekki eru félagsmenn fá ekki bókina sér að kostnaðarlausu.
Kompás og Compasito – þurfum að koma því á framfæri við félagsmenn að þetta sé líka fyrir þá sem starfa með yngri börnum.
Senda á Ölfu, Gísla og Árna fyrir norðan til að vekja athygli á námskeiðinu. Hvetja norðanfólk að miðla upplýsingum um námskeiðið á milli.
Heimasíðan og facebook
Setja Kompás auglýsingu á Fb og heimasíðu.
Kanna áhuga félagsmanna varðandi fræðslutilboð  Fb og óskar eftir hugmyndum frá félagsmönnum.
Spurning um hýsingaraaðila á heimasíðunni, erum hjá Advania núna. Kostar um 4000 krónur á mánuði.
Fara yfir félagatal og facebook vini.
Þróunarstyrkir SFS
Guðrún var fulltrúi fagfélagsins í úthlutunarnefnd. Ekki hefur verið haft samband vegna fyrirhugaðra úthlutana.
Fjármál
Erum vel sett. Mikilvægt að nýta vel þann styrk sem félagið fékk vegna Kompás-námskeiða. .
Félagsgjöld, um 70 manns hafa greitt en um 85 eru skráðir félagar.
Nú erum við að fara að fara yfir jólagjafalistann í ár – ert þú búin/n að greiða félagsgjöld í ár?
Handbók
Staðan í vinnunni. Farið yfir fundargerð síðasta fundar og þær hugmyndir sem vinnuhópur er kominn með.
Elísabet og Helgi athuga betur bækur sem þau bentu á varðandi þessa vinnu. Stjórn  líst vel á þá vinnu sem komin er af stað.
Stefnumótun í æskulýðsmálum
Sent var bréf með FÍÆT og Samfés til ráðuneytisins og óskað eftir þessari vinnu. Ekki hafa fengist nein viðbrögð við bréfinu að öðru leiti en þessu máli var vísað til æskulýðsráðs. . Verðum að senda formlega fyrirspurn til æskulýðsráðs  og kanna með stöðu mála
Samstarfssamningur við Samfés og FÍÆT
Fréttist af breytingum en ekki hefur endanleg útgáfa borist. Sendum fyrirpurn.
Náum áttum
Fundir hafa verið vel sóttir. Elísabet tók á móti greiðslu á fundunum og búin að halda undirbúningsfund. Er í góðum farvegi.
Starfsáætlun 2012-2013
Hádegishittingur félagsmanna í desember – fræðslunefnd.
Jólahittingur  stjórnar – Guðrún.
Gjafamál fyrir félagsmenn – Guðrún og Helgi
Fræðslunefnd skilar áætlun 15. nóvember – fræðslunefnd.
Handbókarmál – allt starfsárið – handbókarhópur.
Netfangalisti, tiltekt með hliðsjón af félagalista – janúar 2013 – Hulda.
Könnun á FB, óskir um fræðslu – nóvember – Guðrún.
Jólakort með dagskrá vorannar – nóvember/desember – Helgi.
Google docs skráningar á hádegisfund í desember – Guðrún.
Næsti fundur stjórnar er þann 10. desember kl. 11-13
Útfærslu á vinnustofu vegna þeirra sem lokið hafa Kompás-námskeiði – janúar 2013 – Hrafnhildur og Elísabet.
Kompás, styrkur og uppgjör – desember 2012 – Hulda.
Samstarf við Æskulýðsvettvanginn vegna Kompás/Compasito – Hrafnhildur.

Aðalfundur Félags fagfólks í frítímaþjónustu 2012

Aðalfundur Félags fagfólks í frítímaþjónustu á Thorvaldsen þriðjudaginn 15. Maí
2012
Kl. 17:00
Mættir: Árni Guðmundsson, Hrafnhildur, Elísabet Pétursdóttir, Hulda Valdís, Björn Finnson, Bryngeir, Eygló,Þóra, Magga, Soffía, Helgi, Jakob, Bjarki.
1) Fundur settur og dagskrá kynnt.
Fundur settur af formanni og stingur upp á Árna Guðmundssyni sem fundarstjóra. Árni stingur upp á að færa til dagskrá eð a færa yfirferð reikninga í lokin.
2) Skýrsla stjórnar og skýrslur hópa og nefnda
Hulda kynnir stjórn og verkefnaskiptingu. Hulda fer yfir helstu verkefni stjórnar. s.l. starfsár.  Skýrslu stjórnar má skoða í heild sinni sem viðhengi í fundargerð.
Umræða um skýrslu stjórnar.
Spurt er um stefnumörkun í æskulýðsmálum og Margrét svarar þar sem hún situr í æskulýðsráði að það sé búið að taka 2 milljónir úr rekstri ráðsins til að fara í þessa vinnu. Maður verði ráðinn í verkið sem fyrst. Umræður um stefnumörkunina og Jakob veltir því fyrir sér hvort þetta muni hafa eitthvað vægi? Eygló bendir á reglugerðina sem var unnin fyrir ráðuneytið varðandi tryggingar og lagalegu hliðina og að óspart sé vísað í það plagg. Hulda segir að stjórnin hafi vísað í þá reglugerð þegar ályktun var send til sveitarfélagsins í Garði. Því er betra að hafa eitthvað plagg heldur en ekkert plagg. Þóra bendir á mikilvægi þess að félagið sé svolítið á undan og skuli velta fyrir sér hvar vörðurnar eigi að vera gagnvart okkar starfi án þess að það hamli okkur. Það þarf að vera olnbogarými innan allra ramma.
Margrét fagnar verkefnum félagsins og hrósar skýrslunni og fagnar því hvað félagið er öflugt, Þóra tekur undir þetta.
Soffía minnist á hvort verið sé að íþyngja félaginu með að skipa í nefndir og ráð, en Hulda segir að stjórn þurfi að virkja fleiri til starfa fyrir félagið.
3) Reikningar félagsins
Helgi gjaldkeri fer yfir ársreikninga félagsins. Rekstrartap félagsins er vegna þess að styrkur vegna Kompás kom 2010 en var eytt og framkvæmt 2011. Mjög einfalt bókhald, engar eignir. Eitt sinn átti félagið prentara en búið er að afskrá hann. Lítil hreyfing er á fjármunum félagins utan reglubundins reksturs eins og heimasíða o.fl. Sama árgjald hefur verið s.l. þrjú ár epa  2500 krónur. Ekki er búið að ná undirskriftum skoðunarmanna en fundurinn getur samþykkt með fyrirvara um samþykkt þeirra.
Fundarstjóri óskar eftir umræðu um reikningana, Eygló bendir á að stjórn  skuli skuldbinda sig til að tilkynna þegar búið er að samþykkja reikningana jafnvel bara á samþykkt.
Reikningar samþykktir einróma með þessum fyrirvörum.
4) Starfsáætlun og fjárhagsáætlun næsta árs
Hulda fer yfir það sem er fram undan og þá helst væntingar stjórnar til að fá starfsmann til að halda utan um Kompás námskeið. Mög sóknarfæri eru t.a.m. vegna fræðslu mikið hefur verið rætt um hvernig félagið skuli styðja við bakið á félagsmönnum með fræðslu. Félagið vill fá hugmyndir frá félagsmönnum um hverjar þarfir þeirra eru. Félagið er komið með styrk frá Menntamálaráðuneytinu vegna Kompásnámskeiða á þessu ári.
Handbókarvinna í samstarfi við FÍÆT, Samfés og SFSÍ. Eygló kemur með hugmynd um að félagið stofni fræðslunefnd/teymi í samstarfi við stjórn og gefur kost á sér í slíkt ef af verður. Margrét tekur undir hugmyndina og kemur með hugmynd um að á næsta ári verði sett svolítið púður í að auglýsa félagið og ef það verður nefnd þá sé hún til í þá vinnu. Vill að sett verði markmið um að fjölga félögum um 50 á þessu ári. Hulda segir að hluti af verkefnum ,,starfsmannsins“ sé að sinna kynningarstörfum. Þóra bendir á að það væri frábært fyrir starfsmanninn að hafa nefnd á bak við sig.
Árni kemur með hugmynd um að breyta heimasíðunni þannig að hluti hennar séu ritrýndar greinar fagsins. Þá er hægt að vekja athygli á þeim. Skapa þarf fræðilegan vettvang. Hulda segir að við höfum verið að taka hænuskref í þessu og fólki sé í sjálfvald sett hvað þau sendi til félagsins. Þetta er hugmynd sem við höfum verið að skoða. Jakob tekur undir þetta og veltir því fyrir sér hvernig sé hægt að fræða um fagið miðlægt ekki bara í einu sveitarfélagi, þá kannski eitthvað torg þar sem hægt er að leita til ákveðins fólks til að kenna. Starfsmenn sveitarfélaga geta þá fengið sína fræðslu þarna. Endurmenntun HÍ væri jafnvel vettvangur fyrir slíkt til að styrkja námið og fræðin okkar. Þyrftum að búa til símenntunarsvið sem sinnir okkar málaflokki, ef farið er í handbókarvinnu þá væri spurning um að ráða tvo starfsmenn sem ynnu saman að þessu. Þarf að auka kraftinn í deildinni í hí, hægt er að rökstyðja einhvers konar eflingu með starfs- og vettvangstengingu. Jakob er til í fræðslunefnd.
5) Árgjald
Tillaga stjórnar er óbreytt gjald, engin mótmæli eru við þessu og því telst þetta samþykkt.
6) Lagabreytingar og skipulag
Engar tillögur hafa borist og því er haldið í næsta lið.
7) Kosning stjórnar og varamanna
Kjósa skal formann með sér kosningu. Fundurinn óskar eftir framboði, Hulda býður sig fram til áframhaldandi setu hún er sjálfkjörin.
Umræður um kosningar, fundarstjóri kemur með ábendingu um að það þurfi að snyrta lögin til það sem snýr að þessu máli.
Helgi og Guðrún eru sjálfkjörin áfram í stjórn til tveggja ára.
Hrafnhildur og Elísabet eiga eitt ár í viðbót í stjórnarsetu.
Varamenn, Bryngeir gefur kost á sér ásamt Birni Finnssyni þeir eru sjálfkjörnir.
8) Kosning skoðunarmanna reikninga
Árni Guðmundsson og Ólafur Þór eru sjálfkjörnir skoðunarmenn reikninga.
9) Önnur mál
i) Samstarfssamningur félagsins, FÍÆT, Samfés og SFSÍ kynntur.
Drögum er dreift og formaður les yfir drögin. Sjá nánar drög að samstarfssamningi í fylgiskjölum fundargerðar. Formaður ítrekar mikilvægi þess að allir gangi í takt. Búið er að sækja um styrk vegna ferðakostnaðar sem liggur í því að fara á milli aðalfunda félaganna. Óskað er eftir umræðum um samninginn. Stjórn félagsins er gefið samhljóða samþykki til að halda áfram þessari vinnu.
ii) Handbókarvinna
Jakob óskar eftir upplýsingum varðandi þetta, umræða stjórnar, hvað vilja félagsins o.fl. Hulda segir að þetta sé á byrjunarreit. Jakob segir frá því að Alfa hafi komið á fund til þeirra og þá hafi þau aðeins farið yfir efnislega þætti og svo var líka hugmynd um að finna eitthvað til að þýða og staðfæra. Helgi bendir á handbók á dönsku sem er jafnvel hægt að nota, hann ætlar að leita að henni og senda okkur slóðina á hana. Margét segir að við ættum að byrja á strúkturnum sem er hér og svo í handbók. Eygló tekur undir þetta og segir að töluvert sé til að frábæru efni, einnig sé minna mál að þýða og staðfæra við eigum tilmælalaust að líta til nágrannaþjóða okkar. Spurning um að taka leshring og allir leiti og leggi svo í púkk. Umræður um þessa vinnu. Eygló bendir á að með þessari vinnu verðum við að samræma hugtakanotkun okkar. Elísabet bendir á sænska bók sem heitir opp in verksammet styður einnig tillögu um stofnun fræðslunefndar. Þóra tekur undir það sem Eygló talaði um varðandi orðræðu og hugtakanotkun. Jakob segir frá því að starfsmaður sé í háskólanum í vinnu um íðorð og geti leiðbeint um stofnun íðorðanefndar. Einnig bendir Jakob á að mikilvægt sé að horfa til framtíðar við vinnu handbókar, hvað þarf almenningur, hvað þarf gamla fólkið, hvert er hlutverk fagfólks eftir 30 ár? Árni segir frá því að hann sé markvisst farinn að nota hugtakið félags- og uppeldisfræði vegna þess að það sé eitthvað sem fólk þekki. Árni leggur til að stofnuð verði fræðsluhóp sem kynnir sér stofnun íðorðanefndar í faginu sem er skipuð þremur aðilum. Kosið er um hugmyndina og samþykkt einróma. Þóra vill að stjórn setji saman erindisbréf vegna þessa þar sem tilgreint er verksvið nefndarinnar. Jakob, Eygló og Hulda skipa þennan hóp.
Fundarstjóri þakkar fyrir sig óskar félaginu góðs gengis á næsta.
Hulda segir stjórn tilbúna í næsta ár og mikilvægt að finna hlutunum farveg til að koma þeim í framkvæmd.
Fundi slitið kl. 18:40
Fundargerð ritar Guðrún Björk Freysteinsdóttir
Fylgiskjöl

Samstarfssamningu FÍÆT, SFSÍ, FFF og Samfés
DRÖG
Félag íþrótta- æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi (FÍÆT),  Samtök forstöðumanna sundstaða á Íslandi (SFSÍ), Félag fagfólks í frítímaþjónustu (FFF) og Samtök félagsmiðstöðva á Íslandi (Samfés) gera með sér eftirfarandi
SAMSTARFSSAMNING
1. grein
Tilgangur og markmið.
Ofangreind félög eiga það öll sameiginlegt að starfa með og /eða fyrir börn og ungmenni á Íslandi.  Mikilvægt er að samræma þær áherslur og verkefni sem félögin taka að sér, annað hvort að eigin frumkvæði eða samkvæmt óskum yfirvalda.
Aukið samstarf félaganna á að leiða til farsæls og faglegs barna- og ungmennastarfs og koma í veg fyrir misræmi í áherslum og framkvæmd verkefna sem tengjast t.d. íþrótta-, æskulýðs- og forvarnarstarfi á Íslandi.
2. grein
Framkvæmd
Til að stuðla að því að ofangreind félög tali einni röddu og nái að samræma framkvæmd verkefna og/eða skoðanir á hinum ýmsu málefnum sem snerta tilgang og markmið félaganna verður fulltrúum félaganna boðinn seturéttur á aðalfundum hvors annars með tillögurétt og málfrelsi. Stjórnir félaganna munu setja sér sameinginleg markmið sem fela m.a. í sér aukið samstarf við Samband Íslenskra sveitarfélaga og við Mennta –og menningarmálaráðuneytið. Lögð verði áhersla á, að þegar leitað er umsagna um t.d. lagafrumvörp eða reglugerðir sem tengjast verksviðum og áherslum félaganna, að samræma eins og kostur er þær umsagnir. Stjórnir félaganna munu leitast við að miðla fræðslu og hagnýtum upplýsingum og nýjungum sem tengjast starfsemi þeirra og hvetja félagsmenn til að fylgjast vel með þróun og nýsköpun sem hægt er að nýta í starfinu. Mikilvægt er að samstarfssamningur þessi og megin innihald hans verði vel kynntur þeim aðilum sem við á.
3. grein.
Gildistími o.fl.
Samstarfssamningur þessi tekur gildi þegar stjórnir allra samstarfsaðila hafa samþykkt hann og aðalfundur félaganna staðfest hann. Samningurinn er ótímabundinn. Ef félag, sem áður hefur samþykkt þátttöku í samningnum, óskar að segja sig frá honum, þarf viðkomandi félag að senda skriflega og rökstudda greinargerð til hinna samstarfsfélaganna og telst hann þá ekki lengur aðili að samkomulagi þessu.
4 . grein
Af samningi þessum eru gerð 4 samrit, eitt fyrir hvert félag.

Gjört _____________________ 2012.

Samþykkt f.h. stjórnar:

__________________________________
__________________________________
__________________________________