Fyrsti stjórnarfundur IFS Norden

Guðmundur Ari ásamt meðlimum Setlementti samtakana

Guðmundur Ari ásamt meðlimum Setlementti samtakana

Síðastliðna mánuði hefur stjórn FFF unnið að stofnun IFS Norden sem eru regnhlífarsamtök fyrir hverfamiðstöðvar á Norðurlöndunum og starfsfólk þeirra. Hverfamiðstöðvar eru þekkt fyrirbæri út allan heim þó hugmyndafræðin hafi aldrei verið alveg sú sama á Íslandi. Í grunninn vinna hverfamiðstöðvarnar að sömu markmiðum og Íslenskt tómstundastarf þar sem markmiðin eru að virkja borgarana til þátttöku, halda óformleg fræðslu, styrkja einstaklingana og borgaravitund þeirra.

Guðmundur Ari formaður FFF var staddur í Vaasa í Finnlandi dagana 24.-29. nóvember þar sem fram fór ráðstefna Finnsku hverfamiðstöðvasamtakana Setlementti ásamt stjórnarfundi hjá IFS Norden en Ari er ritari stjórnarinnar. Ari kynnti íslenskar hverfamiðstöðvar eða þá starfssemi sem líkist hverfa miðstöðvunum hvða mest og hugmyndafræðina á bakvið þær. Á stjórnarfundi IFS Norden var ákveðið að skoða aðild samtakana og aðildafélaga í Strategic partnership verkefni sem stjórn FFF hefur einnig unnið að síðastliðna mánuði í samstarfi við Fritidsforum.

Í þessari ferð voru stigin stór skref í átt að öflugu Norðurlanda samstarfi FFF og systrasamtaka FFF á Norðurlöndunum. Næstu skref eru svo að ráðast í gerð umsóknar til Erasmus+ og Nordplus til að fjármagna 2-3 ára samstarfsverkefni þar sem verkefnastjórnin verður í höndum FFF og munu samtökin fá rekstrarstyrki á meðan á verkefninu stendur.

Fundargerð fyrsta stjórnarfundar IFS Norden
IFS Norden – First board meeting 25.11.2015

Starfsáætlun stjórnar FFF 2015-2016

FFF stafirStarfsáætlun stjórnar fyrir veturinn 2015/2016. Starfsáætlun þessi var útbúin á starfsdegi stjórnar föstudaginn 28. ágúst 2015. Það má með sanni segja að það sé skemmtilegur vetur framundan!

Fræðslumál

 • Skipa öfluga fræðslunefnd
 • Halda tvo hádegisfundi á önn
 • Halda námskeið í samstarfi við Háskólann
 • Halda grunnámskeið í fagstarfi á frístundaheimilum

Markaðsmál

 • Vera virk í markaðssetningu á félaginu og starfsemi þess
 • Senda bréf á nýútskrifaða tómstundafræðinga og kynna félagið
 • Kynna félagið fyrir nemum í tómstunda- og félagsmálafræði
 • Halda kynningu á fagfélaginu í nágrannasveitarfélögum
 • Kynna félagið á námskeiðum á vegum þess og ráðstefnum
 • Fá alla meðlimi FFF í Facebook grouppu félagsins – Búa til öflugan umræðuvettvang
 • Uppfæra kynningarbækling og prent til að dreifa á námskeiðum
 • Prenta kynningar veggspjald og senda á starfsstöðvar
 • Fá 45 nýja félaga í félagið á starfsárinu

Samstarf

 • Finna nýjan tengilið FFF hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu
 • Áframhaldandi samstarf við Mennta- og menningarmálaráðuneytið, æskulýðsvettvanginn, æskulýðsráð, Samfés, FÍÆT og Háskólann
 • Áframhaldandi samstarf vegna Tómstundahandbókar
 • Sækja um Strategic partnership styrk í samstarfi við Fritidsforum
 • Vinna í samstarfi við önnur norðurlönd að stofnun IFS Norden
 • Áframhaldandi samstarfs við orðanefnd í tómstundafræðum

FFF opnar skrifstofu

IMG_9356Stjórn FFF samþykkti á starfsdegi stjórnar sem fram fór föstudaginn 28. ágúst á KEX Hostel að greiða formanni tímabundið laun í 6 mánuði sem nemur 15% starfi. Verkefni þetta er hugsað sem tilraun fyrir félagið að sækja um styrki og leita að fjármagni til að reka félagið framvegis með starfsmann í vinnu. Eins og samþykkt var á síðasta aðalfundi mun stjórn vinna með Fritidsforum að umsókn um Strategic partnership styrk sem innifelur m.a. rekstrarstyrk til tveggja ára.

Fyrsta verkefni formanns sem starfsmaður fyrir félagið var að fá skrifstofuaðstöðu í Hinu húsinu endurgjaldlaust til áramóta. Við þökkum Markúsi forstöðumanni og öllum í Hinu húsinu kærlega fyrir að hýsa samtökin á meðan unnið er að þessu verkefni. Með skrifstofunni fylgir fundaraðstaða og aðgangur að upplýsingamiðstöðinni til að halda viðburði og fræðslufundi.

Formaður mun vera á skrifstofunni mánudags- og miðvikudagsmorgna og hægt er að fá fund með honum með að senda póst á fagfelag@fagfelag.is

Það eru spennandi tímar framundan en von bráðar birtir stjórn starfsáætlun og fræðsluáætlun 2015/2016.

Allir flottir

Opnara Fagfélag með skýr markmið

FFF stafirTímamóta aðalfundur FFF fór fram á veitingastaðnum Horninu fimmtudaginn 28. maí 2015 eða á 10 ára afmæli félagsins.

Kjörin var ný stjórn en hana skipa
Guðmundur Ari Sigurjónsson – Formaður
Heiðrún Janusardóttir
Katrín Vignisdóttir
Elísabet Pétursdóttir
Bjarki Sigurjónsson
Guðrún Björk Freysteinsdóttir – Varamaður
Hulda Valdís Valdimarsdóttir – Varamaður

Á fundinum voru samþykktar þrjár lagabreytingar.sem fólu í sér nýja skilgreiningu á félaginu, ný markmið og ný inntöku skilyrði.

 • Teknar voru út allar tengingar FFF við einstaka aldurshópa eins og ungt fólk enda er félagið félag fagfólks í frítímaþjónustu óháð aldri
 • Fellt var út markmið félagsins um að stofna stéttarfélag þar sem það hefur nú þegar náðst og sett voru inn tvö ný markmið í staðin þar sem lagt er áhersla á fræðsluhlutverki FFF
 • Að lokum var opnað á inntökuskilyrði í félaginu og eiga núna allir rétt á að gerast aðilar í félaginu sem hafa lokið tómstunda- og félagsmálafræði eða þeir sem starfa á vettvangi frítímans og hafa gert síðastliðna 6 mánuði

Þetta eru stórtíðindi og liður í því að stækka félagið enn frekar en um 30% aukning var á meðlimum í FFF á síðastliðnu starfsári. Stjórnin fékk einnig umboð aðalfundar til að halda áfram með alþjóðlegt samstarf FFF og Fritidsforum.

Það verður því ekki annað sagt en að það séu spennandi tímar framundan hjá Félagi fagfólks í frítímaþjónustu!

Hér má sjá fundargerð fundarins

Risa tækifæri framundan fyrir FFF

10672202_10153757593122942_722209843917726163_nFélag fagfólks í frítímaþjónustu skellti sér í námsferð til Stokkhólms dagana 25.-28. mars. Verkefnið var unnið í samstarfi við Fritidsforum en það eru sænsk samtök sem eru einskonar samblanda af FFF og Samfés. Fritidsforum vinnur þó þvert á allan aldur og meðlimir samtakana eru samtök og stofnanir en ekki einstaklingar.

Í ferðina héldu 22 meðlimir FFF út en verkefnið var styrkt af Evrópu unga fólksins. Dagskrá verkefnisins var fjölbreytt en skiptist þó helst í tvö meginþemu, annars vegar samstarfi við Fritidsforum, að kynnast starfsemi, verkefnum og koma á frekara samstarfi milli samtakana tveggja. Hins vegar var farið í mikið af vettvangsheimsóknum þar sem hver og einn gat valið sér starfsstöð eftir eigin áhugasviði til að skoða.

EUF-logoFerðin gekk með eindæmum vel og má segja að bæði samtökin hefðu fengið enn meira útúr heimsókninni en þau þorðu að vona. Þátttakendur ferðarinnar voru einnig ákaflega sáttir og fannst ferðin auka þekkingu þeirra á því sem hægt er að gera, hvað þau eru að gera vel ásamt því að blása þátttakendum eldmóð í brjósti við að gera vel og hrinda nýjum verkefnum í framkvæmd.

Eitt er þó alveg ljóst að FFF bíður stórt og mikið verkefni en það er að vinna út úr þessari heimsókn og semja ný markmið og stefnu fyrir Fagfélagið. Það sýndi sig mjög í þessari ferð að FFF er ákaflega sterkur vettvangur þar sem saman koma einstaklingar á eigin forsendum til að vinna að eigin áhugamálum og ástríðu. Í því býr mikill kraftur sem hægt er að virkja enn betur til að auka fagmennsku á vettvangi frítímans á Íslandi. Annað sem eftir situr eftir ferðina er hversu mikilvægt alþjóðasamstarf er fyrir samtök eins og FFF en í samstarfi við Fritidsforum eru þegar komnar af stað hugmyndir af verkefnum og viðburðum sem hægt væri að hrinda af stað í nánustu framtíð.

Ánægja með umfjöllun um tæki og tækni á hádegisverðarfundi FFF

fff_hadegisverdarfundur_090914Fyrsti hádegisverðarfundur Félags fagfólks í frítímaþjónustu árið 2015 var haldinn 11. mars sl. á Kaffi Sólon. Yfirskrift fundarins að þessu sinni var Tæki og tækni – Blessun eða böl í frístundastarfi? Á fundinum fjölluðu þær Tinna Breiðfjörð Guðjónsdóttir, forstöðumaður í frístundaklúbbnum Hofinu, og Þórunn Vignisdóttir, forstöðukona í félagsmiðstöðinni Laugó í Reykjavík, um notkun og áhrif tölva, snjalltækja, netsins og netmiðla í frístundastarfi.

Í erindi sínu lagi Tinna út frá hugtakinu rafræn lífsleikni og fléttaði ýmis hugtök inn í umfjöllun sína um rafrænt námsnet barna og unglina og mikilvægi þess að líta á samfélag barna heildrænt sem námssamfélag eða það sem á dönsku kallast det kompetente bornefællesskap. Í erindi sínu fjallaði hún jafnframt um mikilvægi þess að börn og unglingar fái stuðning í að efla rafræna færni, fjölmiðlalæsi og tæknilæsi, og um miðla dagsins í dag sem félagsmótunartæki sem eiga stóran þátt í daglegu lífi þeirra.

Þórunn lagði í sínu erindi út frá áralangri reynslu af barna- og unglingastarfi í félagsmiðstöðvum en hún hefur nýtt tæki og netmiðla í sínu starfi með góðum árangri. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að börn og unglingar fái að vinna með miðla og kynnast fyrr því umhverfi sem bíður þeirra, eða þau jafnvel eru farin að nota með eða án samþykkis foreldra, svo þau geti tekið þátt og nýtt miðla með uppbyggilegum hætti á ábyrgan hátt.

Um 20 manns mættu til fundarins að þessu sinni og gæddu sér á súpu yfir erindinu. Ánægja var með viðfangsefnið og erindi þeirra Tinnu og Þórunnar og samdóma álit fundargesta að fleiri hefðu þurft að mæta til fundarins enda viðfangsefnið eitt af því helsta sem brennur á fagfólki á vettvangi frítímans, og víðar reyndar, í starfi með börnum og unglinga. Í umræðum á eftir var komið inn á tölvuleiki og aldurstakmörk og umræður spunnust um viðmið og reglur í félagsmiðstöðvum því samhliða. Þar voru fundargestir sammála um að tölvuleikir og notkun þeirra væri efni í sérstakan hádegisverðarfund og spurning hvort ekki verði af því fljótlega.

Þórunn og Tinna veittu leyfir fyrir því að glærur þeirra yrðu aðgengilegar á vef fagfélagsins og þakkar fræðslunefndin þeim kærlega fyrir erindið sem og aðgang að efninu.

Eygló Rúnarsdóttir, fræðslunefnd FFF

Hér má nálgast glærurnar hennar Tinnu Breiðfjörð

Kynning Þórunnar Vignis

Tæki og tækni – blessun eða böl í frístundastarfi?

Næsti hádegisverðarfundur Félags fagfólks í frítímaþjónustu verður miðvikudaginn 11. mars kl. 12:00 á Sólon, 2. hæð, Bankastræti 5 í Reykjavík. Yfirskrift fundarins að þessu sinni er Tæki og tækni – Blessun eða böl í frístundastarfi? Þar munu þær Tinna Breiðfjörð Guðjónsdóttir, forstöðumaður í frístundaklúbbnum Hofinu, og Þórunn Vignisdóttir, forstöðukona í félagsmiðstöðinni Laugó í Reykjavík, fjalla um notkun og áhrif tölva, snjalltækja, netsins og netmiðla í frístundastarfi. Erindi Tinnu og Þórunnar munu hefjast stundvíslega kl. 12 og því hvetjum við gesti fundarins til að mæta tímanlega til að fá sér snarl en súpa og brauð verður á tilboðsverði frá 11:30 til gesta hádegisverðarfundarins á aðeins 990.- Fundurinn er opinn öllum og félagsmenn hvattir til að bjóða með sér gestum, samstarfsfélögum eða öðrum áhugasömum um efni fundarins.

Skráning í Svíþjóðarferð FFF 2015

Hér fer fram skráning í Svíþjóðarferð FFF sem farið verður í 25. mars 2015. Fimmtán pláss eru laus og er skráningargjaldið 5000 krónur. Sendur verður póstur á alla sem skrá sig og þeir fyrstu 15 beðnir um að millifæra inn á fagfélagið og hinir fá póst um að þeir séu komnir á biðlista.

 

Hádegisverðarfundur 18. nóvember

Staða og starfsumhverfi tómstundafræðinga og fagfólks á vettvangi frítímans er viðfangsefni næsta hádegisverðarfundar FFF sem haldinn verður þriðjudaginn 18. nóvember kl. 11:45 á Sólon, Bankastræti 5 í Reykjavík. Guðmundur Ari Sigurjónsson, formaður FFF, Jakob Frímann Þorsteinsson, námsbrautarstjóri tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands og Andri Ómarsson, formaður Stéttarfélags tómstundafræðinga, munu flytja stutt innlegg og í framhaldi verða almennar umræður um málefnið. Að vanda gefst gestum kostur á að snæða hádegismat á fundinum og hægt er að panta af matseðli Sólon sem ávallt býður upp á rétt dagsins og súpu dagsins á mjög svo viðráðanlegu verði. Gott er að mæta tímanlega og panta matinn áður en fundur hefst. Fundurinn er öllum opinn og félagsmenn því hvattir til að mæta og bjóða með sér vinum, vandamönnum, vinnufélögum eða öðrum áhugasömum um þetta þarfa mál. Stefnt er að því að fundi sé lokið 12:45. Áhugasamir með rýmri tíma geta setið áfram yfir kaffibolla í spjalli.

Námskeið í að nota Litla Kompás

Í tilefni af útgáfu bókarinnar Litli kompás, handbók um mannréttindamenntun fyrir börn á aldrinum 7 – 13 ára, stendur Æskulýðsvettvangurinn og Félag fagfólks í frítímaþjónustu með stuðningi frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu fyrir fimm námskeiðum í notkun á bókinni.

Litli kompás er handbók um mannréttindamenntun fyrir börn sem nýtist fagfólki í æskulýðsmálum og öllum þeim sem vinna með börnum. Í handbókinni er fjallað um lykilhugtök á sviði mannréttinda og réttinda barna. Kjarni bókarinnar er 40 fjölbreytt verkefni sem byggjast á virkum kennsluaðferðum og er ætlað að hvetja og örva áhuga og vitund barna um mannréttindi í eigin umhverfi. Verkefnin eiga ennfremur að þroska gagnrýna hugsun, ábyrgð og réttlætiskennd og stuðla að því að börn læri að grípa til aðgerða og leggja sitt af mörkum til hagsbóta fyrir samfélagið. Auk þess er í bókinni fræðileg umfjöllun um þrettán lykilatriði mannréttinda, svo sem lýðræði, borgarvitund, kynjajafnrétti, umhverfismál, fjölmiðla og ofbeldi.

Kennari á námskeiðinu er Jóhann Þorsteinsson, M.Ed. í menntunarfræðum og sviðsstjóri æskulýðssviðs KFUM og KFUK á Íslandi.

Námskeiðin fara fram:

 • Miðvikudagur 17. september kl. 13.00 – 17.00 í félagsheimili Keflavíkur 2. hæð, Sunnubraut 34, Reykjanesbær.
 • Miðvikudagur 24. september kl. 13.00 – 17.00 í sal björgunarsveitarinnar Hérað, Miðási 1 – 5, Egilsstöðum.
 • Miðvikudagur 8. október kl. 14.00 – 18.00 í Tíbrá, aðsetri Ungmennafélags Selfoss, Engjavegi 50, Selfoss.
 • Fimmtudaginn 9. október kl. 13.00 – 17.00 í Hlöðunni, frístundamiðstöð í Gufunesbæ við Gufunesveg, 112 Reykjavík.
 • Miðvikudaginn 22. október kl. 13.00 – 17.00 í Rósenborg, Skólastíg 2, Akureyri.

Skráning fer fram á netfanginu ragnheidur@aeskulydsvettvangurinn.is Við skráningu þarf að koma fram nafn, netfang og starfsvettvangur. Þátttökugjald er 1000kr. og greiðist í upphafi námskeiðs. Innifalið í þátttökugjaldi eru léttar veitingar.